Fara í efni

Bæjarráð

709. fundur 20. desember 2018 kl. 08:00 - 09:10 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Friðrik Sigurbjörnsson formaður
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Friðrik Sigurbjörnsson, formaður, setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 13.desember 2018.

1812027

Með bréfinu óskar Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis eftir umsögn vegna frumvarps til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, 417. mál.
Lagt fram til kynningar.

2.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 13.desember 2018.

1812028

Með bréfinu óskar Allsherjar- og menntamálanefnd eftir umsögn vegna tillögu til þingsályktunar um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi, 443. mál.
Bæjarráð tekur undir nauðsyn þess að íslenska verði efld sem opinbert mál á Íslandi og áhersla lögð á að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Því fagnar bæjarráð framkominni þingsályktunar tillögu en vísar henni jafnframt til fræðslunefndar með þeirri ósk að fjallað verði um það í nefndinni hvernig skólar Hveragerðisbæjar geti eflt íslenskukunnáttu nemenda enn frekar en nú er gert.

3.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 13.desember 2018.

1812029

Í bréfinu hvetur stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sveitarstjórnir til þess að setja í samninga um opinber innkaup kröfur um keðjuábyrgð sem tryggi réttindi verkafólks og sporni gegn mögulegri misnotkun á erlendu vinnuafli.
Bæjarráð leggur áherslu á að spornað sé gegn misnotkun vinnuafls í bæjarfélagiu, hjá Hveragerðisbæ, fyrirtækum eða félagasamtökum og mun leggja áherslu á að ákvæði um keðjuábyrgð sem tryggi réttindi launafólks verði sett í verklega samninga bæjarins.

4.Bréf frá Íbúðalánasjóði frá 12.desember 2018.

1812037

Í bréfinu tilkynnir íbúðalánasjóður að Hveragerðisbær verður ekki á meðal þeirra sveitarfélaga sem fyrst verða tekin inn í tilraunaverkefni Íbúðalánasjóðs í húsnæðismálum landsbyggðarinnar.
Lagt fram til kynningar.

5.Bréf frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands frá 6. desember 2018.

1812030

Í bréfinu, sem er afrit af bréfi til Pure North Recycling, er rætt um uppsöfnun hráefnis á lóð þeirra við Sunnumörk 4 - kröfur um úrbætur og tilkynning um endurskoðun starfsleyfis.
Bæjarráð leggur áherslu á að fyrirtækið fari að öllu að ákvæðum og fyrirmælum eftirlitsaðila varðandi umgengni á umræddri lóð. Bæjarráð ætlast jafnframt til þess að forsvarsmenn fyrirtækisins og eftirlitsaðilar sjái til þess að ekki stafi hætta og/eða mengun af þeirri starfsemi sem þarna fer fram.

6.Minnisblað frá bæjarstjóra: Gerð húsnæðisáætlunar fyrir Hveragerðisbæ.

1812034

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra frá 30. nóvember 2018 vegna gerðar húsnæðisáætlunar fyrir Hveragerðisbæ. Fengist hafa tvö tilboð í að gera áætlunina frá RR ráðgjöf og VSÓ Ráðgjöf.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að taka tilboði VSÓ Ráðgjöf í gerð húsnæðisáætlunar fyrir Hveragerðisbæ.

7.Samningur við Vegagerðina um skil vega í Hveragerði.

1812033

Lagður fram samningur við Vegagerðina um fullnaðarskil á vegum og kostnaðaruppgjör vegna yfirfærslu veghalda þeirra frá Vegagerðinni til Hveragerðisbæjar.
Bæjarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.

8.Samkomulag um kjarasamningsumboð.

1812031

Lagt fram samkomulag um kjarasamningsumboð Hveragerðisbæjar til Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna 15 stéttarfélaga.
Bæjarráð samþykkir umboðið fyrir sitt leyti.

9.Fundargerð Sorpstöðvar Suðurlands frá 13.desember 2018.

1812032

Sorpa hefur tilkynnt að frá og með 1. janúar 2019 verði lokað á frekari móttöku sorps til urðunar frá sveitarfélögum á starfssvæði Sorpstöðvar Suðurlands. Því óskar bæjarráð eftir því að stjórn Sorpstöðvar Suðurlands boði tafarlaust til fundar með sveitarstjórnum á svæðinu þar sem staða mála verður útskýrð og næstu skref kynnt. Einn af þeim möguleikum sem Hveragerðisbær hefur skoðað er útflutningur á sorpi Hveragerðinga til brennslu erlendis. Verði það reyndin er mikilvægt að allt endurnýtanlegt og endurvinnanlegt hráefni náist úr því sorpi sem senda þarf erlendis. Því felur bæjarráð bæjarstjóra og umhverfisfulltrúa í samráði við sorphirðuaðila að útbúa kynningarefni til að ítreka mikilvægi flokkunar í Hveragerði því nú er ljóst að taka verður risavaxið skref í átt að frekari flokkun þar sem urðunarstaður fyrir Sunnlendinga er ekki fyrir hendi. Leggja ber alla áherslu á að ná lifrænum efnum úr almennu sorpi. Gleri verði skilyrðislaust skilað á gámasvæði og efni hvers konar, ónýtt sem nýtanlegt fari skilyrðislaust í endurvinnslufarvegi. Oft var þörf á aðgerðum í þessa veru en nú er samstaða bæjarbúa á þessu sviði óumflýjanleg enda höfum við ekki lengur aðgang að öruggum urðunarstað.

10.Fundargerð Samband íslenskra sveitarfélaga frá 14.desember 2018.

1812036

Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 09:10.

Getum við bætt efni síðunnar?