Fara í efni

Pistill frá bæjarstjóra í lok viku 13.

Kæru íbúar Hveragerðisbæjar!

Orð eru ekki mikils megnug þegar við í lok þessarar viku sendum fjölskyldunni sem takast þarf á við missi og veikindi okkar sterkustu strauma og samúðarkveðjur. Vágestinn bar niður hér í bænum okkar með afdrifaríkum og sorglegum hætti. En ég vona að allir þeir sem nú eiga um sárt að binda finni að á tímum sem þessum slá hjörtu okkar allra í takt og við biðjum um styrk til handa þeim sem hafa misst ástvin og glíma við veikindi.
---------------
Stjórnendur Hveragerðisbæjar sinna nú störfum sínum margir hverjir að heiman til að mögulegt sé að tryggja órofinn rekstur bæjarins og til að koma í veg fyrir að margir forfallist í einu. Á aukafundi bæjarstjórnar sem haldinn var föstudaginn 27. mars var lögð fram stöðuskýrsla bæjarstjóra þar sem farið var yfir rekstur og stöðu einstakra stofnana. Ljóst er að hert samkomubann hefur haft víðtæk áhrif og eru nú stofnanir eins og sundlaugin, íþróttamannvirkin og söfn bæjarins lokuð. Tekin var ákvörðun um síðustu helgi um að grunn- og leikskólar yrðu aðeins opnir forgangsbörnum og vil ég nota þetta tækifæri og hvetja foreldra sem starfa sinna vegna þurfa á þjónustu skólastofnana að halda að sækja um slíkt á www.island.is eða beint til skólastjórnenda. Einnig er tekið við umsóknum vegna sérstakra aðstæðna á heimilum í gegnum félagsþjónustuna á netfangið edda@hveragerdi.is

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag, föstudag, fyrsta aðgerðapakkann til stuðnings við fyrirtæki og atvinnulíf. Er einróma samstaða um það í bæjarstjórn að styðja við fyrirtæki sem nú glíma við erfiðleika í rekstri af þeirri stærðargráðu sem enginn gat séð fyrir. Án blómlegs atvinnulífs þrífst illa gott mannlíf en atvinnuleysi er böl sem við viljum fyrir alla muni reyna að koma í veg fyrir. Fyrirtæki sem glíma við tekjutap af völdum COVID-19 munu fljótlega geta sótt um frestun á greiðslu fasteignagjalda í fjóra mánuði. Einstaklingar munu fá niðurfelld þjónustugjöld vegna þjónustu sem ekki er nýtt eða ekki hefur verið mögulegt að nýta og eru leikskólagjöldin þar viðamest. Einnig var í bæjarstjórn rætt um markaðsstuðning við ferðaþjónustuna en útfærsla bíður þess að við sjáum til lands í því verkefni sem nú er við að glíma.

Það hefur verið dásamlegt að fylgjast með hvernig rekstraraðilar hafa umsnúið sínum rekstri með þá von í brjósti að viðskipti og þar með grunnur að fyrirtækjunum hverfi ekki alveg. Nú er komið að okkur að versla íslenskt. Við verðum að verja störfin og fyrirtækin. Pöntum heim eða sækjum vörur og veitingar á staðinn. Verslum brauð og fisk og kaupum okkur blóm. Þannig sjáum við til þess að þessir aðilar verði allir til staðar fyrir okkur þegar þessum erfiða tíma lýkur.

Að lokum vil ég senda starfsmönnum Hveragerðisbæjar og öðrum íbúum bæjarins sem nú sinna með vinnu sinni þeim íbúum okkar sem hvað veikastir eru fyrir okkar innilegustu þakkir. Nú þegar Covid-19 er farið að gæta víða vil ég að þið vitið hversu þakklát við erum fyrir þá þjónustulund og þann kærleika sem þið sýnið íbúum í Hveragerði með störfum ykkar. Það er skylda okkar allra að hlúa sérstaklega að þeim sem ekki geta gert það sjálfir þegar svona árar. Við vitum að þið eruð í því starfi vakin og sofin og fyrir það vil ég þakka.

Við erum að sigla inn í mikinn óvissu tíma og erum í ferðalagi sem enginn hefur áður lagt upp í. Við hefðum líka öll svo gjarnan viljað sleppa þessari ferð en slíkt er víst ekki í boði.    Svo verðum við öll að muna að með hverjum degi sem líður færumst við nær því að þetta ástand líði hjá. Við vonum svo innilega að það verði sem fyrst.

Með kærleiks kveðjum til ykkar allra, 

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri.


Síðast breytt: 27. mars 2020
Getum við bætt efni síðunnar?