Fara í efni

Góð gjöf til Hveragerðisbæjar

Hveragerðisbær fékk í dag veglega gjöf frá Kvenfélagi Hveragerðis og Kvenfélaginu Bergþóru í Ölfusi. Formenn félaganna, Dagbjört Guðmundsdóttir frá Ölfusi, Ásta Gunnlaugsdóttir og Sólborg Guðmundsdóttir úr Hveragerði  afhentu Pétri Markan bæjarstjóra skautbúning til eignar og varðveislu en búningurinn hefur prýtt fjallkonur bæjarins allt frá árinu 1963. 

Búningurinn var upphaflega keyptur af fyrrnefndum kvenfélögum en hin síðari ár hefur hann verið í varðveislu kvenfélags Hveragerðis.

Skautbúningnum fylgir hvorki stokkabelti né faldur en það hefur alla tíð verið fengið að láni fyrir hátíðahöldin á 17. júní. Lengi vel var það Helga Baldursdóttir sem lánaði sitt stokkabelti og fald en hún var einmitt fyrsta fjallkonan til að bera búninginn þegar hann var vígður á 17. júní árið 1963. Þá hefur hún einnig haft það hlutverk um árabil að aðstoða fjallkonuna við skrýðinguna á þjóðhátíðardegi. Í seinni tíð hefur Anna Jórunn Stefánsdóttir lánað stokkabelti og fald úr sinni eigu.

Bæjarstjóri og bæjarstjórn þakka kvenfélögunum þessa veglegu og fallegu gjöf. 

Skautbúningur að gjöf


Síðast breytt: 19. mars 2025
Getum við bætt efni síðunnar?