Samningur við Leikfélag Hveragerðis undirritaður
Þjónustuamningur við Leikfélag Hveragerðis var undirritaður á æfingu hjá félaginu í gær. Samningurinn er til þriggja ára og er honum ætlað að efla samstarf bæjaryfirvalda í Hveragerðisbæ og Leikfélags Hveragerðis auk þess að tryggja öflugt menningarstarf í bænum. Stefnan er að sem flestum gefist kostur á þátttöku við uppsetningu leiksýninga og við annað starf félagsins.
Meginskyldur Leikfélagsins samkvæmt samningnum felast í þátttöku í hátíðahöldum á vegum bæjarins og námskeiðahaldi fyrir börn og/eða ungmenni ár hvert í aðdraganda bæjarhátíðarinnar Blómstrandi daga.
Hveragerðisbær veitir félaginu árlegan rekstrarstyrk og greiðir einnig fasteignagjöld af húsnæði Leikfélagsins.
Pétur G. Markan bæjarstjóri og Valdimar Ingi Guðmundsson formaður Leikfélags Hveragerðis undirrituðu samninginn fyrir hönd aðila.
Æfing á sýningu haustsins, Ávaxtakörfunni, var í fullum gangi svo það var mikið fjör í leikhúsinu. Frumsýning verður laugardaginn 28. september nk.