Fara í efni

Öll börn fædd árið 2018 eru á leið í leikskóla


Foreldrar og forráðamenn allra barna sem fædd eru árið 2018 hafa nú fengið boð um leikskólavistun. Mun inntaka elstu barnanna hefjast að loknu sumarfríi í næstu viku en þeim yngstu mun bjóðast pláss síðar í haust og í byrjun vetrar. Stefnir því í að yngstu börn á leikskóla verði 10-11 mánaða undir lok árs og hefur bæjarfélagið sjaldan geta boðið þessum hópi betri þjónustu en nú.

Með byggingu nýs leikskóla, Undralands, sem hefur nú að fullu verið tekinn í notkun hefur framboð á leikskólaplássum aukist til muna og því er nú mögulegt að bjóða jafn ungum börnum og hér um ræðir leikskólavistun. Leikskólinn er hinn glæsilegasti en með honum voru opnaðar þrjár nýjar deildir. Þar var við hönnun skólans gert ráð fyrir jafn ungum börnum og hér um ræðir en í sumar hefur einnig verið unnið að endurbótum á Leikskólanum Óskalandi svo þar verði einnig hægt að bjóða yngstu börnunum vistun.

Það er bæjarstjórn sérstakt ánægjuefni að með þessum miklu framkvæmdum sé hægt að tryggja jafn góða þjónustu og hér um ræðir.

Aldís Hafsteinsdóttir
bæjarstjóri


Síðast breytt: 9. ágúst 2019
Getum við bætt efni síðunnar?