Frístundaleiðbeinendur á útivakt
Í gærkvöld fór hópur af frístundaleiðbeinendum frá Bungubrekku í sína fyrstu formlegu útivakt.
Útivaktir eru hugsaðar sem forvarnarstarf þar sem starfsfólk sem starfar daglega með ungmennum kíkir út á kvöldin fyrir utan hefðbundinn opnunartíma í félagsmiðstöðinni. Með þessu vilja þau leggja sitt af mörkum til að tryggja að ungmenni sem er á flakki um sveitarfélagið séu örugg og allt sé í góðu.
Í gærkvöld hittu þau nokkra hópa og tóku spjallið, hittu á lögregluna sem var á rúntinum og hún ræddi einnig við frístundaleiðbeinendurna og ungmennin. Margt var rætt en aðallega mikilvægi þess að vera með hjálm á vespum. Eins voru útivistarreglurnar góðu rifjaðar upp þar sem klukkan var að nálgast miðnætti.
Umræða var einnig um fánann fallega sem var málaður við Lystigarðinn og allt sem hefur átt sér stað í kringum hann síðustu daga.
Flott framtak hjá frístundaleiðbeinendum Bungubrekku.