Enduruppbygging Hamarshallar
Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum 8. desember 2022 að setja 1. áfanga nýrrar Hamarshallar í alútboð, sbr. minnisblað Alark arkitekta og Mannvits um endurbyggingu Hamarshallarinnar dags. 5. desember 2022 og er bæjarstjóra falið að auglýsa útboðið og fylgja því eftir.
Meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar ásamt bæjarstjóra, öðru starfsfólki bæjarins og hönnunarteymi frá Alark og Mannviti hafa undanfarin misseri kappkostað við að útfæra framtíðarsýn í uppbyggingu íþróttamannvirkja Hveragerðisbæjar inni í Dal. Sú vinna hefur tekið mið af þarfagreiningu hönnunarhópsins sem skilaði tillögum sínum í haust, en mikilvægt er að stíga næstu skref í uppbyggingu Hamarshallarinnar með það fyrir augum að skapa samkeppnishæfan húsakost fyrir allar íþróttir til framtíðar á sem hagkvæmastan máta. Meirihlutinn hefur haft samráð við Íþróttafélagið Hamar um fyrirliggjandi tillögur að framtíðaruppbyggingu og áfangaskiptingu og er samhljómur með íþróttahreyfingunni um næstu skref um uppbyggingu íþróttamannvirkja. Samráðsfundur með öllum bæjarfulltrúum um tillögur að framtíðaruppbyggingu var fyrr í dag. Fyrsti áfangi í uppbyggingu nýrrar Hamarshallar er ný yfirbygging reist á steyptum grunni eldri Hamarshallar, dúkveggur settur upp til að afmarka fótboltahús frá óinnréttaðri fjölnota íþróttaaðstöðu og þjónusturýmum innan nýju yfirbyggingarinnar, og nýtt anddyri reist og fullbúið við norðurhlið Hamarshallarinnar. Stefnt er að því að alútboð verði auglýst á næstu dögum, tilboð opnuð í lok janúar og samningur undirritaður mánuði síðar. Markmiðið er að fótboltasalur verði afhentur í september 2023 til notkunar og áfangi eitt verði fullbúinn í byrjun desember 2023. Með samþykki bæjarstjórnar á útboði fyrsta áfanga Hamarshallarinnar í þessari útfærslu er stigið skref í átt að uppbyggingu framtíðarhúsnæðis fyrir íþróttahreyfinguna í Hveragerði með samkeppnishæfri æfinga- og keppnisaðstöðu, en síðari áfangar í uppbyggingu Hamarshallarinnar verða byggðir upp eftir því hvernig íbúafjölgun og byggð þróast í bæjarfélaginu á næstu árum.
Meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar þakkar þeim sem hafa komið að þeirri vinnu sem hefur átt sér stað vegna verkefnisins undanfarna mánuði. Við horfum björtum augum til framtíðar og fögnum því að nú sé framtíðaruppbygging íþróttamannvirkja kominn í góðan farveg.