Fara í efni

Anna Guðrún er íþróttamaður Hveragerðis 2024

Lyftingakonan Anna Guðrún Halldórsdóttir var í dag kjörin íþróttamaður Hveragerðis árið 2024 en árangur hennar í ólympískum lyftingum hefur verið með ólíkindum á nýliðnu ári. Anna Guðrún hefur sett fjölda Íslandsmeta, Evrópumeta og heimsmeta í sínum aldursflokki en hún er núverandi Evrópu- og heimsmethafi í flokki 55-59 ára í 87 og +87 kg flokki auk þess að vera Íslandsmethafi í sömu flokkum. Hún keppti í apríl á miðjarðahafsmóti í Durres í Albaníu þar sem hún varnn gull og var valin Grand master með flest stig reiknuð ásamt því að setja Evrópu- og heimsmet.

Einnig keppti Anna Guðrún á Evrópumeistaramóti í Haugasundi í Noregi í júní þar sem hún vann gull, setti Evrópu- og heimsmet. Þá keppti hún á heimsmeistaramóti í Finnlandi í september þar sem hún vann gull ásamt því að setja Íslands-, Evrópu- og heimsmet.

Anna Guðrún á í dag:

  • 3 heimsmet (hefur sett tíu slík á árinu 2024) allt í flokki 55-59 ára
  • 3 Evrópumet (hefur sett tólf slík á árinu 2024) allt í flokki 55-59 ára
  • 39 Íslandsmet en hefur sett 180 Íslandsmet frá haustinu 2020 í flokkum 35-39, 40-44, 45-49, 50-54 og 55-59 ára.

Anna Guðrún hefur náð metárangri á árinu 2024 og er því svo sannarleg vel að titlinum komin. Sjálf var hún erlendis þegar verðlaunin voru afhent í dag en eiginmaður hennar, Gunnar Biering Agnarsson, tók við bikarnum fyrir hennar hönd. 

Innilegar hamingjuóskir Anna Guðrún!


Síðast breytt: 5. janúar 2025
Getum við bætt efni síðunnar?