Fara í efni

Lystigarðurinn Fossflöt

Lystigarðurinn markast af Breiðumörk, Skólamörk og Varmá. Ræktun garðsins hófst þar árið 1983 og er þar nú fallegur gróður með leiksvæði, bekkjum og borðum sem ferðamenn geta nýtt sér til útivistar. Á bakka Varmár neðan við Reykjafoss má sjá leifar af gömlum húsgrunni. Grunnurinn markar upphaf byggðar í Hveragerði því þar var ullarverksmiðja sem reist var árið 1902 og nýtti fallorku fossins. Innar í Varmárgilinu eru uppistandandi veggir rafstöðvar sem gerð var árið 1929. Þaðan má rekja undirstöður fallstokksins að heillegri stíflunni neðan Hverahvamms.

Flottur göngustígur liggur meðfram Varmánni þar sem má sjá gamla húsgrunninn. Í gilinu eru hinar fegurstu litasamsetningar og hveralandslag sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Í Lystigarðinum er útisýningin Listamannabærinn Hveragerði og var hún  vígð á bæjarhátíðinni Blómstrandi dagar. Sýningin er gjöf Listvinafélagsins og Hveragerðisbæjar til íbúa þess í tilefni 70 ára afmælis bæjarins.  Á sýningunni í Lystigarðinum eru kynntir rithöfundarnir Gunnar Benediktsson, Helgi Sveinsson, Jóhannes úr Kötlum, Kristján frá Djúpalæk, Kristmann Guðmundsson og Valdís Halldórsdóttir, myndlistarmennirnir Höskuldur Björnsson og Kristinn Pétursson og tónskáldið Ingunn Bjarnadóttir.

Hægt er að kynna sér betur sýninguna á heimasíðu Listvina

Síðast breytt: 02.11.2022
Getum við bætt efni síðunnar?