Dagskrá

Dagskrá

Tónlistarveisla á Blómstrandi dögum 11. – 14. ágúst 2016

Fjölbreytt afþreying verður alla dagana og líf og fjör í bænum. Markaðsstemmning verður áberandi því margir íbúar verða með heimasölur þessa daga og þjónustufyrirtæki með plöntu- og grænmetismarkað og önnur með skemmtidagskrá og glæsileg tilboð.

Á laugardeginum verður Ísdagurinn hjá Kjörís en þá er öllum Íslendingum boðið upp á ís í miklum mæli og koma m.a. Ingó, Felix Bergsson, Lína Langsokkur o.fl. í heimsókn. Börnin eru ávallt í fyrirrúmi á hátíðinni og er margt skemmtilegt í boði fyrir þau eins og leiksýning Lottuhópsins, Sirkus Íslands, veltibíllinn, aparólan, leiktæki, hoppukastalar og margt fleira.

Frábær tónlistaratriði

Tónlistin skipar stóran sess á hátíðinni og mun landslið tónlistarmanna koma fram á hátíðinni bæði heimamenn og gestir. Má nefna hljómsveit Bryndísar Ásmunds sem heiðrar minningu Amn Winehouse, Jón Ólafsson leikur af fingrum fram með Gunnari Þórðarsyni. Ljúfir jazztónar, Stuðlabandið, Hljómlistarfélagið og fleiri troða upp. Ingó Veðurguð sér um brekkusönginn í ár og verður flugeldasýning hjálparsveitarinnar sérlega glæsileg í tilefni af 70 ára afmæli bæjarins.

Hugum að heilsunni

Fjölbreytt dagskrá af heilsutengdum viðburðum verður á hátíðinni en boðið verður upp á gönguferðir, aparóluferð, vatns-þrautabraut, crossfit og margt margt fleira fyrir alla fjölskylduna. Brekkuhlaupin hafa skipað sér sess, en þau eru hlaupin í þremur brekkum bæjarins, Laugaskarðs-, Gos(s)a- og Laufskógarbrekku. Einnig verður hægt að rækta líkama og sál í jóga.

Áhugaverðar sýningar

Ýmsar sýningar verða þessa daga m.a. í Listasafni Árnesinga, Bókasafninu, Sunnumörk og Þorlákssetri, húsi eldri borgara. Í Verslunarmiðstöðinni Sunnumörk er sýninginn Skjálftinn 2008 en hún er uppi allt árið um kring. Örvar Árdal hefur myndskreytt uppistandandi veggi í Eden. Félagar úr Fornbílaklúbbnum munu leggja glæsikerrum sínum við íþróttahúsið á laugardeginum. Víða um bæinn verða opin gallerí og sýningar í bílskúrum.

Hverfaskipting

Bæjarhverfin skreytt

Bæjarbúar leggja hátíðinni lið með því að skreyta sitt hverfi og sinn garð. Litir hverfanna verða þeir sömu og í fyrra. En hverfin skiptast í bleika og græna hverfið, rauða og gula hverfið og bláa og appelsínugula hverfið. Verðlaun verða veitt fyrir fallegustu, frumlegustu og mestu skreytingarnar á kvöldvökunni á Fossflöt 13. ágúst.

Góða skemmtun og bjóðum gesti velkomna

Jóhanna M. Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi