Leikskólagjöld, afslættir og gjaldfrjálsir tímar.

skrifað 29. jan 2014
Fiskar á UndralandiFiskar á Undralandi

ASÍ hefur birt samanburð á leikskólagjöldum í 15 stærstu sveitarfélögum landsins. Hveragerðisbær lendir ekki í þeim hópi stærðar sinnar vegna. En ef niðurstöður ASÍ eru skoðaðar kemur í ljós að hér getum við vel við unað hvað varðar leikskólagjöld.


Nýlega birti ASÍ samanburð á leikskólagjöldum í 15 stærstu sveitarfélögum á landinu. Hveragerðisbær lendir ekki í þeim hópi enda í nítjánda sæti hvað varðar stærð sveitarfélaga.
En ef niðurstöður ASÍ eru skoðaðar kemur í ljós að hér getum við vel við unað hvað varðar leikskólagjöld.

Hér í Hveragerði kostar 8 tíma vistun með morgunhressingu, hádegisverði og síðdegishressingu kr. 32.260,- á mánuði. Af þessum hópi 15 sveitarfélaga eru einungis fimm sveitarfélög með lægri heildargjöld (8 tíma vistun og matur) heldur en hér er. Eingöngu Reykjavík og Kópavogur eru undir 30.000,- fyrir sömu þjónustu. Ljóst er því að hér í bæ eru þessi gjöld vel samanburðarhæf við það sem best gerist.

Rétt er að geta þess að samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar hækkaði gjald fyrir vistun ekki um áramótin en hækkun varð á morgunhressingu, hádegisverði og síðdegishressingu, samtals 340,- pr. mánuð. Heildarkostnaður barnafólks hækkaði því um 1% um áramótin.

Systkinaafsláttur gildir á milli dagforeldra, leikskóla og frístundaskóla og nemur hann 30% með næst yngsta barni en gjaldfrjálst er fyrir þriðja systkini og fjórða og fimmta ef einhverjir skyldu nú vera svo duglegir. Einnig eru hér í boði afslættir fyrir einstæða foreldra og námsmenn sem betur eru útskýrðir í reglum um innritun og gjöld í leikskólum Hveragerðisbæjar.

Að lokum er rétt að geta þess að elsti árgangur leikskólabarna hverju sinni fær fjóra tíma gjaldfrjálsa á dag og er leikskólagjald þeirra barna með fæði því einungis 20.330,-

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri

Hér má sjá umfjöllun ASÍ um leikskólagjöld.