Einstakar gönguleiðir í Hveragerði
Mikil áhersla hefur verið lögð á uppbyggingu göngustíga kerfis í og umhverfis Hveragerði á undanförnum árum. En með því að tengja saman einstakar náttúruperlur innan bæjarins og afþreyingu og athyglisverða staði er vonast til að Hveragerði verði í fremstu röð bæjarfélaga á Íslandi, sem hlúa að fallegu og aðlaðandi umhverfi fyrir alla fjölskylduna.
Í bænum liggja göngustígar um miðbæjartorgið, skrúðgarðinn á Fossflötinni, Sandskeiðið, sunnan undir Hamrinum, Fagrahvammstúnið, Heilsustofnun NLFÍ og meðfram Varmá inn í Ölfusdal. Þessi svæði tengjast jafnframt neti göngustíga í landi Landbúnaðarháskóla Íslands, undir Reykjafjalli og í Ölfusborgum. Þá er tilvalið að labba upp á Hamar en þaðan sést yfir Hveragerði, Suðurlandsundirlendið og Ölfusdalinn í norðri. Vel má merkja jökulrákir frá síðasta jökulskeiði í Hamrinum. Velja má lengri og skemmri gönguleiðir allt eftir þörfum hvers og eins. Allir ættu því að finna gönguleiðir við hæfi.
Árið 2011 var enn bætt við flóru göngustíga og fjölbreytni þeirra þegar komið var upp nokkrum líkamsræktartækjum við göngustíginn undir Reykjafjalli. Nýtur sú gönguleið mikillla vinsælda enda hentar hún vel flestum þeim sem vilja bæta þol og úthald án þess að gengið sé um of langan veg. Hér má sjá mjög skemmtilegt myndband sem Sævar Hansson, íbúi í Hveragerði, tók á Heilsustígnum. Þarna kemur vel fram hversu gagnleg tækin eru sem sett hafa verið upp við stíginn og ekki síður hversu fjölbreytt og skemmtilegt umhverfi göngumanna er á þessari leið.
Íbúar eru hvattir til að njóta þeirra fjölbreyttu gönguleiða sem hér eru og venja þá sem yngri eru á að gera slíkt hið sama því hollari hreyfing er vandfundin.
Meðfylgjandi mynd tók bæjarstjóri einn góðviðrisdaginn í júlí 2012. Þarna má glöggt sjá nokkrar af skemmtilegum gönguleiðum í bænum.
fleiri fréttir
-
21. feb 2019Heilsuefling fyrir eldri íbúa
-
21. feb 2019Bangsar bæjarins brugðu á leik
-
18. feb 2019Fjölsóttur foreldrafundur
-
05. feb 2019Leikfélag Hveragerðis
-
04. feb 2019Loksins komið skautasvell
-
30. jan 2019Ánægja íbúa mest í Hveragerði
-
29. jan 2019Sýningin Huglæg rými í Listasafn Árnesinga
-
25. jan 2019Vinningshafar í jólagluggaleiknum
-
24. jan 2019Hækkuðu fasteignamati mætt með lækkaðri álagningu
-
24. jan 2019Flokkun úrgangs er forgangsmál