Baráttudagur gegn einelti

skrifað 11. nóv 2013
Baráttudagur gegn einelti 1Baráttudagur gegn einelti 1

Nemendur Grunnskólans í Hveragerði héldu uppá alþjóðlegan baráttudag gegn einelti með skemmtilegum hætti en þau dreifðu jákvæðum boðskap út um allan bæ og má nú sjá skilaboð frá nemendum á veggjum og í gluggum fyrirtækja hér í Hveragerði.

Af heimasíðu Grunnskólans í Hveragerði:

Baráttudagur gegn einelti 8. nóvember var nú haldinn í þriðja sinn en markmiðið með deginum er fyrst og fremst að vekja athygli á málefninu og benda á mikilvægi jákvæðra og uppbyggilegra samskipta. Allir eru hvattir til að leggja sitt af mörkum til að einelti fái ekki þrifist í samfélaginu og skólar, samtök og vinnustaðir eru beðnir að beina sjónum að jákvæðum samskiptum, jákvæðum skólabrag og starfsanda.

Í okkar skóla unnu vinabekkirnir saman að ýmsum verkefnum. Jákvæðum boðskap var dreift út um allan bæ, í ýmsar verslanir, stofnanir og vinnustaði. Nemendur unnu að ýmsum verkefnum í skólanum sem lögðu áherslu á mikilvægi þess að vinna saman á jákvæðan hátt og vera vinir.

Við hvetjum alla til að lesa þjóðarsáttmálann um einelti og skrifa undir hann á netinu.

Þjóðarsáttmáli um baráttu gegn einelti "Við undirrituð skuldbindum okkur til þess að vinna af alefli og einurð gegn einelti í samfélagi okkar. Við munum standa vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Við munum sérstaklega gæta réttar barna og ungmenna sem og einnig allra hópa sem ekki eiga sér málsvara eða sterka rödd. Við munum öll hvert á okkar sviði, skuldbinda okkur til þess að hafa áhrif til góðs á nánasta umhverfi okkar. Við ætlum að vera góð fyrirmynd og leggja okkar af mörkum til þess að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er".

Hér má skrifa undir sáttmálann. http://www.gegneinelti.is/sattmalinn/undirskriftir/

Á myndinni má sjá hópinn sem heimsótti bæjarskrifstofuna og skilaboðin sem þar voru sett upp.