60 mkr hagnaður af rekstri bæjarfélagsins

skrifað 28. apr 2015
Sumar og sól í HveragerðiSumar og sól í Hveragerði

Skuldahlutfallið 114% og 60 mkr hagnaður af rekstri

Það er ánægjulegt að geta látið íbúa vita af því að hagnaður af rekstri Hveragerðisbæjar er um 70% betri en fjárhagsáætlun ársins 2014 gerði ráð fyrir. Hagnaður af rekstri A og B hluta nam 60,4 mkr en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að fjárhæð kr. 35,8 mkr.

Skuldahlutfallið er 115%

Afborganir langtímalána og afborganir leiguskuldar vegna Sunnumarkar nema 157,1 m kr. Tekin ný langtímalán á árinu 2014 voru 65 mkr. Í árslok er hlutfall skulda af tekjum 123,8% en ef frá er dregin lífeyrisskuldbinding sem fellur til eftir 15 ár eða síðar er skuldahlutfallið 114,8%.

Tekjur að nálgast 2 milljarða

Heildartekjur A og B hluta eru 1.989 mkr og heildarútgjöld án afskrifta og fjármagnsliða 1.695 mkr. Eigið fé samstæðu A og B hluta í árslok nam rúmum 948 mkr. skv. efnahagsreikningi.

Veltufé frá rekstri 10,4% af tekjum

Veltufé frá rekstri A og B hluta nam um 207,8 mkr eða 10,4 % af heildartekjum. Handbært fé frá rekstri var 215,5 mkr. en áætlun gerði ráð fyrir 227,5 mkr. Þessi stærð er mjög mikilvæg þar sem hún sýnir þá peningamyndun sem varð hjá sveitarfélaginu á árinu. Eðlilegt er að gera ráð fyrir að þessi stærð sé hærri en nettó greiðslubyrði langtímaliða til þess að sveitarfélagið þurfi ekki að fjármagna rekstur eða endurgreiðslu lána með nýju lánsfé eða sölu eigna. Ef rekstur sveitarfélagsins á árinu 2015 verður svipaður og á árinu 2014 þá mun handbært fé frá rekstri verða nægjanlegt til þess að greiða fyrir áætlaðar afborganir lána og afgangur verður til fjárfestinga.

Fjárfest fyrir 113 mkr

Á árinu 2014 voru helstu fjárfestingar fólgnar í gatnagerði í Bröttuhlíð og Þverhlíð og lagninur göngustíga auk þess sem keypt var húsnæði fyrir frístundaskóla. Fjárfesting á árinu 2014 nam 113 mkr.

Ofangreindar upplýsingar komu fram í máli endurskoðanda en ársreikningur Hveragerðisbæjar var lagður fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar þann 8. apríl 2015.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri