Á ferð með fuglum - Sýningarlok og sýningarstjóraspjall

skrifað 25. sep 2008
Sunnudaginn 28.september kl. 15 mun Hrafnhildur Schram ræða við gesti um Höskuld og verk hans á sýningunni.
Nú er komið að lokum sýningarinnar á verkum Höskuldar Björnssonar, sem listgagnrýnir Morgunblaðsins gaf yfirskriftina "Yndisleiki íslenskrar náttúru." Höskuldur náði að skapa sér sess í íslenskri listasögu sem fuglamálari og flest verkanna á sýningunni eru af fuglum, en þar má líka sjá landlagsmyndir, sjálfsmyndir og uppstillingar. Þær eru ýmist unnar með olíulitum eða vatnslitum en einnig er hægt að skoða myndskreytt sendibréf til vina og ættingja. Höskuldur fæddist 1907 í Nesjum við Hornafjörð en lést fyrir aldur fram 1963 og hafði þá búið síðustu sautján æviár sín í Hveragerði, á listamannsárum þess.
Sýningarstjóri sýningarinnar er Hrafnhildur Schram. Hún er listfræðingur að mennt og á fjölbreyttan og farsælan feril sem safnstjóri, kennari, sýningarstjóri, fræðimaður og listgagnrýnir. Hún hefur einnig komið að gerð heimildamynda og ritað bækur um íslenska listamenn
Sýninginn hefur verið afar vel sótt, enda langt um liðið síðan verk Höskuldar hafa verið til sýnis. Á veturna er safnið opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12 - 18. Hægt er að kaupa kaffiveitingar á staðnum, skoða upplýsingarit um myndlist og í barnahorni eru kubbar til að leika með.
Aðgangur er ókeypis.
Nánari upplýsingar veitir Inga Jónsdóttir safnstjóri í síma 895 1369 eða listasafn@listasafnarnesinga.is