Listastund fyrir alla fjölskylduna í Listasafni Árnesinga

skrifað 12. feb 2008

Fréttatilkynning
12. febrúar 2008 Ekki missa af skemmtilegri listastund fyrir alla fjölskylduna í Listasafni Árnesinga

FJÖLSKYLDAN SAMAN
GAMAN, LITAGLEÐI OG VÖFFLUKAFFI Síðasti sunnudagur með myndlistakennara á "Stefnumóti við safneign - listir•leikur•lærdómur" 17. febrúar.
Síðasta sýningarhelgi á "Stefnumót við safneign - listir•leikur•lærdómur" 23. og 24. febrúar Síðasti sunnudagur með kennara
Sunnudagurinn 17. febrúar er síðasta tækifæri til að eiga stund með myndlistakennara í Listasafni Árnesinga, sem staðið hefur fyrir "Stefnumóti við safneign" fyrir gesti og gangandi í vetur. Á "Stefnumóti við safneign" gefst gestum á öllum aldri tækifæri til að reyna sig með litum og nokkra sunnudaga hafa myndlistarkennarar verið þeim til aðstoðar. Ekki er krafist neins undirbúnings og litir og pappír eru á staðnum. Gestir eru hvattir til að láta myndir á sýningunni kveikja hugmyndir að nýjum verkum um leið og handbragð og efnistök eldri meistara eru skoðuð.
Stund í Listasafninu er góð samverustund fyrir alla fjölskylduna, en þátttaka er ókeypis. Stefnumót við safneign - verkin á sýningunni
Á sýningunni eru valin verk úr eigu safnsins, en megnið af þeim er úr gjöf Bjarnveigar Bjarnadóttur og sona. Flest verkin eru unnin á fyrri hluta og um miðbik síðustu aldar en það elsta er sjálfsmynd Ásgríms Jónsonar frá árinu 1900.
Sýningunni lýkur sunnudaginn 24. febrúar.

Kennarar
Síðasta viðvera myndmenntakennara að sinni verður sunnudaginn 17. febrúar en þá verða bæði Katrín Briem og Margrét Zophoníasardóttir myndmenntakennarar með leiðsögn í safninu, en þær eiga báðar langan og farsælan kennsluferil.
Katrín var skólastjóri Myndlistarskóla Reykjavíkur um tíma, hefur unnið kennsluefni og kennir enn bæði í Myndlistarskóla Kópavogs og Myndlistarskóla Reykjavíkur. Hún er mörgum Árnesingum að góðu kunn m.a. af námskeiðum hjá Myndlistarfélagi Árnesinga.
Margrét hefur kennt við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Listaháskólann, Myndlistaskóla Reykjavíkur, Myndlistaskóla Kópavogs, Billedskolen í Danmörku og Tegning og Designskolen Indiakaj í Danmörku. Námskeið í myndlistarsögu
Í febrúar og mars er hægt að kynnast gömlu meisturunum enn frekar með því að sækja námskeið í íslenskri myndlistarsögu hjá Hrafnhildi Schram, listfræðingi í Listasafni Árnesinga. Fræðslunet Suðurlands sér um skráningu á námskeiðið, sem hefst 20. febrúar. Listasafn Árnesinga er við Austurmörk 21 í Hveragerði. Safnið er opið fimmtudaga til sunnudaga, frá kl. 12 - 18. Hægt er að kaupa veitingar, vöfflukaffi á sunnudögum, og skoða rit um myndlist í kaffistofunni.
Aðgangur að Listasafni Árnesinga er ókeypis. Nánari upplýsingar veitir:
Inga Jónsdóttir sanfstjóri, í síma 483 1727 eða 865 1369